Ernir.net home

Ernir writes

on computers and society, apparently.

Hversu ókeypis er Windows 10?

(Upprunalegur Facebook-póstur)

Nýlega kom út ný stýrikerfisútgáfa frá Microsoft. Sú útgáfa virðist almennt vera vel liðin - mikið af göllunum frá hinu afar óvinsæla Windows 8 hafa verið lagaðir, og mörgum eftirsóknarverðum fídusum hefur verið bætt við. Stýrikerfið er augljóslega tæknilegt stórverk, og kostar oft ekki krónu í þokkabót.

En þetta stýrikerfi hræðir mig.

Það sem mér þykir markverðast við Windows 10 er nefnilega ekki nein einstök tæknileg útfærsla, heldur eðli nýju skilmálanna sem samþykktir eru við uppsetninguna.

Skilmálar eru þekkt fyrirbrigði í hugbúnaðaruppsetningu. Venjulega innihalda þeir klausur sem í löngu máli útskýra að hugbúnaðinn megi ekki afrita án leyfis, að höfundur hugbúnaðarins sé ekki ábyrgur ef draslið bilar, og þar fram eftir götunum. Þessir skilmálar eru langir, leiðinlegir og innihalda sjaldnast nokkurn skapaðan hlut sem skiptir máli. Þess vegna spólar fólk fram hjá þeim án þess að lesa, hakar við "I accept the terms and conditions" og heldur áfram. (Ég er svo sannarlega sekur um þetta.)

En svo vill til að í tilfelli Windows 10 og tengdra þjónusta borgar sig víst að spóla aðeins hægar. Af því að núna, þá áskilur fyrirtækið sér rétt til þess að... 

  • ... lesa tölvupóstsamskipti og skrár sem á tölvunni kunna að vera: we will access, disclose and preserve personal data, including your content (such as the content of your emails, other private communications or files in private folders (Sjá: Microsoft - Reasons we share personal data )
  • ... og til að stöðva keyrslu hug- og vélbúnaðar ef grunað er að hann sé stolinn: We may automatically check your version of the software and download software updates or configuration changes, including those that prevent you from accessing the Services, playing counterfeit games, or using unauthorized hardware peripheral devices (Sjá: Microsoft Services Agreement )

Fyrir mér hljóma þessir skilmálar helst eins og Orwellískur brandari. Ég er ekki með neinn ósiðlegan hugbúnað eða níðvísur um Microsoft á tölvunum mínum, en fjárinn hafi það, ég vil geta gert og geymt það sem ég vil á minni tölvu án þess að einhver bibbi úti í Bandaríkjunum hafi pappír upp á að mega skipta sér af því.

Ég vil ekki láta það hljóma eins og þau ykkar sem þegar hafa sett upp Windows 10 hafið verið nörruð til að hleypa skrattanum inn á skrifstofuna ykkar. Ég er mögulega að vera paranoid - kannski er ekkert að fara að gerast. En mig langar til að hvetja þau sem hafa uppfært (eða hyggjast gera það) til að fara vandlega yfir það sem samþykkt hefur verið, af því að í þetta skipti gæti það skipt máli.

Það gæti nefnilega verið að greitt hafi verið fyrir ókeypis Windows-uppfærsluna með frelsi.