(Upprunalegur Facebook-póstur)
Líklega hefur það ekki farið fram hjá mjög mörgum netverjum að ýmsir netþjónustuaðilar hafa nýlega fengið á sig bann við því að "veita aðgang að tilteknum síðum". Tækniglöggt fólk hefur keppst við að úthrópa þessi bönn sem gagnslaus. Mig langar til að útskýra af hverju.
Internetið virkar ekki eins og pípulagningakerfi. Grundvallaratriði internetsins eru líkari því að mynda nokkurs konar samskiptastaðal fyrir tölvur. Internetið gegnir þannig svipuðu hlutverki fyrir tölvur og tungumál gegnir fyrir fólk. (Ég bið tæknifólk að afsaka ofureinfaldanir.)
Í þessari einföldun myndi það að fletta upp vefsíðu x þá fara nokkurn veginn þannig fram að maður segi tölvunni sinni að fara að tala við tölvu x, og biðja hana um upplýsingar. Hér myndi x vera svokölluð ip-tala tölvunnar sem við viljum fá upplýsingar frá, t.d. 194.71.107.81 .
Nú flökkum við venjulega ekki um vefinn með því að slá inn ip-tölur. Við flökkum um vefinn með því að slá inn vefslóðir.
Til þess að vefslóðir virki reka ýmsir aðilar svokallaða nafnaþjóna, tölvur sem hafa það hlutverk að vísa tölvum á aðrar tölvur (líkt og símaskrá fyrir ip-tölur).
Þannig að ef að við viljum að tölvan okkar nái í gögn frá http://thepiratebay.se/ hefur hún fyrst samband við nafnaþjón. Nafnaþjónninn segir henni að http://thepiratebay.se/ hafi ip-töluna 194.71.107.81.
Snúum okkur aftur að banninu sem netþjónustuaðilar hafa fengið á sig.
Netþjónustuaðilar eru meðal þeirra sem reka nafnaþjóna hér á landi. Bannið virðist hafa farið þannig fram að nafnaþjónum þeirra hafi verið bannað að afgreiða ákveðnar vefslóðir, til að mynda fyrrnefnda http://thepiratebay.se/. Svo að ef að viðskiptavinir Vodafone biðja nafnaþjón síns fyrirtækis um ip-tölu http://thepiratebay.se/, þá fá þeir pent nei.
En það þýðir alls, alls ekki að ómögulegt sé fyrir tölvurnar að tala saman.
- Hægt er að fara fram hjá nafnaþjónum. T.d. ætti það að slá ip-töluna 194.71.107.81 inn í vafra að gefa upp vefsíðu The Pirate Bay.
- Hægt er að láta tölvuna tala við aðra nafnaþjóna, t.d. nafnaþjóna rekna af Google.
- Vefsíður geta með gríðarauðveldum hætti skipt um nafn. The Pirate Bay heldur úti tugum eða hundruðum nafna, sem nafnaþjónar netþjónustuaðilanna halda áfram að beina áfram. Lítið til dæmis á http://thebay.ws/ (fyrsta nafnið sem ég fann).
Fleiri leiðir eru færar. En útgangspunkturinn ætti að vera sá að auðvelt er að komast fram hjá því að nöfn ákveðinna heimasíðna séu bönnuð af ákveðnum milliliðum. Internetið er sveigjanlegra en svo. Internetið er bókstaflega hannað til að geta staðið af sér kjarnorkuárásir, lögbann á nokkra íslenska nafnaþjóna er í versta falli markaðssetningarvandamál.
Aftur, internetið er líkt tungumáli. Ekki er hægt að koma í veg fyrir að tungumál sé notað á ákveðinn hátt með neinum aðferðum sem eru boðlegar í lýðræðisríki. Þessir tilburðir til að banna aðgang að ákveðnum síðum eru í senn:
- hlægilegir, af því þeir virka ekki
- móðgandi, af því þeir gera ráð fyrir því að það sé mál opinberra aðila að takmarka samskipti mín og tölvunnar minnar
- stórhættulegir, af því þetta sýnir að þetta fólk er tilbúið til að beita alræðislegum aðferðum að kröfu einstaka hagsmunaaðila.
Að lokum:
Nýtt nafn á Deildu er http://icetracker.org/ og The Pirate Bay heldur úti heilu listunum af nöfnum, sem t.d. má sjá á http://proxybay.info/ .